Ávarp borgarminjavarðar
Ágætu gestir.
Sýningin Saga Reykjavíkur - frá býli til borgar fjallar um sögu Reykjavíkur frá landnámi til nútíma. Hún er á dagskrá Reykjavíkur menningarborgar Evrópu árið 2000 sem styrkti gerð hennar. Sýningin mun gegna hlutverki grunnsýningar á Árbæjarsafni. Þannig er gert ráð fyrir að allir safngestir okkar, skólanemar, erlendir og íslenskir gestir og Reykvíkingar byrji á því að skoða sýninguna og njóti þannig betur safnsvæðisins í heild sinni. Á sýningunni er beitt nýjustu tækni við miðlun sögunnar og hefur bakhjarl sýningarinnar átt þátt í því með gerð veglegs vefs um hana.
Sýningin er sú umfangsmesta og metnaðarfyllsta sem Árbæjarsafn hefur tekið sér fyrir hendur. Hún er afrakstur áralangra rannsókna á ýmsum sviðum, fornleifum í Viðey og víðar, sögu Innréttinganna í Reykjavík, lausum minjum 19. og 20. aldar og byggingarsögu borgarinnar. Fjölmargir hafa komið að gerð sýningarinnar og má þar sérstaklega nefna sýningarnefnd hennar og aðra starfsmenn Árbæjarsafns. Vil ég þakka þeim góða hópi ánægjulegt samstarf. Einnig vil ég þakka kærlega þeim fjölmörgu sérfræðingum og fagaðilum öðrum sem komu að gerð sýningarinnar sem og þeim sem styrktu hana.
Safngestum er hér með boðið í spennandi ferð um sögu Reykjavíkur. Eflaust á það eftir að koma mörgum skemmtilega á óvart hversu litrík og fjölbreytileg saga hennar er. Er það von okkar að sýningin kveiki áhuga og að gestir verði fróðari um sögu höfuðborgarinnar og menningararf okkar. Verið velkomin.
Margrét Hallgrímsdóttir,
borgarminjavörður.
|